Mati á umhverfisáhrifum vegna Kröflulínu 3 er lokið. Skipulagsstofnun telur matsskýrslu vegna Kröflulínu 3 uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt en þetta kemur fram í áliti sem stofnunin gaf út 6.desember 2017.
Um verkefnið
Um verkefnið
Kröflulína 3 fer um þrjú sveitarfélög: Skútustaðarhrepp, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp. Áætluð lengd línunnar er 122 km og mun hún liggja að mestu samsíða Kröflulínu 2, frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirkinu við Fljótsdalsstöð.
Markmið framkvæmdarinnar er að bæta raforkuflutningskerfið og auka stöðugleika og gæði orkuafhendingar.
Undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir um alllangt skeið. Tillaga að matsáætlun var kynnt í ársbyrjun 2013 og samþykkt síðar sama ár af Skipulagsstofnun með athugasemdum. Síðan þá hefur staðið yfir vinna við áframhaldandi skoðun valkosta, í samráði við Skipulagsstofnun, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila og gerð frummatsskýrslu þar sem áhrifum framkvæmdarinnar er lýst.
Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er loftlína aðalvalkostur. Jafnframt er lagt fram mat á nokkrum jarðstrengskostum á línuleiðinni, m.a. á um 1.300 m löngum kafla þar sem línan þverar Jökulsá á Fjöllum innan Vatnajökulsþjóðgarðs í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og að auki á nokkrum lengri köflum á svæðum sem falla utan viðmiða í stefnunni. Í frummatsskýrslunni er lagt mat á þætti eins og gróður, fuglalíf, jarðmyndanir, fornleifar, náttúruvernd, neysluvatn og vatnsvernd, útivist og ferðamennsku, landnotkun á afrétti, áhættu og öryggismál.
Samráðsferli
Það er mikilvægt að vinna að undirbúningi Kröflulínu 3 í sem bestu samráði og samvinnu við samfélagið í heild sinni. Í því markmiði höfum við sett af stað verkefnaráð, samráðsvettvang þar sem helstu hagsmunaðaðilar fyrir utan landeigendur koma saman með reglulegu millibili. Samráð við landeigendur verður með svipuðum hætti, í formi reglulegra kynninga- og samráðsfunda auk annara samskiptaleiða sem best henta hverju sinni. Auk þessa verða haldnir opnir kynningar- og upplýsingfundir fyrir íbúa og alla þá sem áhuga hafa á málinu.
Markmiðið með stofnun þessar vettvanga er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum. Við hvetjum alla aðila til að fylgjast með hér á heimasíðunni þar sem upplýsingar um framvindu verkefnsins verða settar inn sem og fundargerðir og annað sem viðkemur verkefninu.
Hægt er senda inn fyrirspurnir og ábendingar undir „senda ábendingar“ og verður því svarað eins og fljótt og við verður komið. Eins er áhugavert að fylgjast með fésbókarsíðunni okkar en þar eru nýjustu fréttir er varða starfsemi fyrirtækisins uppfærðar daglega.